Hátíðardagur hrekkjusvína

1238597452_800px-Aprilsnar_2001

Það eru nokkrir dagar á hverju ári sem eru einstakir. Sem dæmi má nefna að við höldum upp á afmælið okkar einu sinni á ári, höldum jól einu sinni á ári og flestir meira segja fara á hverju ári á Þjóðhátíð til að drekka frá sér allt vitið. Allt dagar sem við höldum mjög vel upp á. Þó er einn dagur sem á til að gleymast, þ.a.s. allavega svona í fyrstu eða þangað til einhver öskrar „Fyrsti apríl”. Já mikið rétt, í dag er fyrsti apríl, hátíðardegur hrekkjusvína.Það er mjög líklegt að þú lesandi góði hefur orðið fyrir aprílgabbi í dag eins og eflaust flestir aðrir í kringum okkur sem ekki heimsækja þennan frábæra fréttamiðil. Íslenskir fjölmiðlar sem dæmi hafa í áraraðir spunnið upp algjöra þvælu fyrir okkur Íslendinga sem flestir hafa ekki fattað fyrir en þeir mæta á staðinn þar sem sá viðburður á að gerast. Í fyrra sem dæmi bauð mbl.is upp á ókeypis niðurhal á kvikmyndum og tóku margir þátt í þeirri vitleysu, eða hátt í 20 þúsund manns. Aðrir lokkuðu fólk að bensínstöð í þeirri trúa að fá mjög ódýrt bensín og aðrir nýttu sér Björn Inga Hrafnson í sinn hrekk, en hann átti víst að hafa tekið við sem ritstjóri 24 stunda og að hann ætlaði að árita endurminningar sínar í Kringlunni. Hvað fjölmiðlar spuna upp í dag er best geymt fyrir ykkur að finna út kæru lesendur.

Sem dæmi um fræg fyrsta apríl gabb erlendis frá má nefna stóra spaghettí tréð sem BBC fjallaði um árið 1957. Þar sýndu þeir þegar spaghettí var týnt úr svokölluðum spaghettí trjám í Sviss. Margir hringdu síðan til BBC og vildu forvitnast um hvernig hægt væri að rækta sín eigin spaghettí tré. Þeir svöruðu þeim spurningum yfirleitt þannig að „settu eina spaghettí lengju í skál af tómatsósu og vonaðu það besta”.
Einu sinni var meira segja sagt frá því að skakki turninn í Písa hafi fallið. Það gerði Hollensk sjónvarpsstöð á fimmta áratug síðustu aldar. Margir hringdu síðar í stöðina til að athuga hvort þetta væri satt, enda voru margir orðlaus yfir þeim fréttum.
BBC flutti fréttir á þessum degi árið 1965 að þeir væru að prófa nýja tækni til að senda áhorfendum einhverskonar ilm gegnum sjónvarpstækin inn á heimilin. Margir hringdu inn á stöðina til að tjá þeim að þeir fundu lyktina. Netútgáfa BBC endurtók síðar leikinn árið 2007 en þá átti lyktin að koma gegnum tölvuna. Ekki er vitað hvort einhverjir hafi þó tilkynnt það að tilraunin hafi virkað eins og gerðist í fyrstu tilraun.

En hvaðan kemur þessi hefð að hrekkja kunningja sína á þessum alþjóðlega degi hrekkjusvína? Ekki er vitað fyrir víst hvenær þessi síður byrjaði og eru til óteljandi margar hugmyndir um upphafið á þessum stórskemmtilega degi. Ein þeirra og án efa vinsælasta miðað við þær heimildir sem blaðamaður þessi fann í tengslum við þennan pistil er kenning sem á upphaf sitt að rekja til Frakklands. Þar segir að árið 1564 breyttu Frakkar um dagatal þar sem þeir færðu fyrsta dag ársins til 1. janúar í staðinn fyrir lok mars. Einhverjir voru mjög tregir að sættast við þessa breytingu eða hreinlega gleymdu að búið var að breyta dagatalinu og voru rækilega vel gabbaðir á þessum degi. Prakkarar festu gjarnan einhverskonar fiska á bakið á fórnalömbum sínum til að merkja þá og kölluðu þeir þennan sið April Fish eða Apríl fiskur á góðri íslensku.

Lesendur eru beðnir um að vera á varðbergi í dag gagnvart aprílgöbbum enda aldrei að vita hvaða vitleysu vinir, kunningjar, samstarfsfélagar eða aðrir reyna að gera manni í dag. Einnig er þú lesandi góði lumar á skemmtilegum hrekk sem þú varst fyrir í dag, bendir blaðamaður sérstaklega á athugasemdar svæðið við pistilinn :)

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 01.apríl 2009 14:47


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband