Námsmenn mótmæla skerðingu í menntakerfinu

IMG_8863
Hátt í þrjú hundrað manns tóku þátt í mótmælagöngu frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorginu á Akureyri klukkan þrjú í dag samkvæmt Lögreglunni á Akureyri, en yfirlýstur tilgangur göngunnar var að mótmæla skerðingu í menntakerfinu. Á fundinum ávarpaði Ragnar Sigurðsson, formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri hópinn og las meðal annars upp úr bréfi sem helstu stúdentahreyfingar landsins sendu á menntamálanefnd Alþingis seint á síðasta ári.

Þær hreyfingar sem um ræðir eru meðal annars Stúdentaráð Háskóla Íslands, Stúdentaráð Háskólans í Reykjavík, félag stúdenta við Háskólann á Akureyri, Listaháskóli Íslands, Stúdentafélag Háskólans á Hólum, SÍNE og Samband Íslenskra framhaldsskólanema. 

Fundarmenn tóku undir kröfum hreyfingarinnar og kröfðust þess að hlúið verði áfram að menntakerfi þjóðarinnar og að stjórnvöld taki höndum saman við að byggja upp samfélag grundvallað af þekkingu, jafnrétti, félagslégu réttlæti og manngildi eins og fram kom í bréfi þeirra. Fundargestir tóku að lokum saman höndum til að strika undir þessar kröfur.

Stúdentahreyfingar landsins hafa miklar áhyggjur af því að framtíðarhagur og velferð umbjóðenda sinna gleymist í rokinu og sjái því frekar hag sinn að flytjast af landi brott miðað við þær aðstæður sem nú eru hér á landi. Óskað er eftir því að þjónustustig LÍN verði ekki skert, að ríkið og LÍN endurskoði grunnframfærslu og reikni hana út miðað við raunverulegt verðlag nauðurfta í þjóðfélaginu og að LÍN taki upp mánaðalegar greiðslur. 

IMG_8845
Ragnar minntist einnig á 3. grein laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem segir: „Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns.“ Samkvæmt því sem kom fram á fundinum hafa stjórnvöld ekki staðið við þetta í þó nokkur ár og bætir Ragnar við: „Hugsið ykkur, þetta er lán. Við erum ekki að biðja um neina ölmösu, við þurfum að greiða þetta til baka.“

„Hingað til höfuð við unnið með skóla til þess að brúa bilið en nú hafa fjölmargir misst þær hlutavinnur sem þeir hafa haft.“, sagði Ragnar en í því samhengi benti hann á að námsmenn fá að meðaltali 85.000 kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu. Miðað við að 44 fermetra íbúð á stúdentagörðum kostar á bilinu 60 - 70.000 kr á mánuði og fer hækkandi, enda er leiguverð tengt við vísitölu. „Án þess að vera dramatískur þá sér hver og einn að reikningsdæmið gengur ekki upp og fleirri og fleirri nemendur eiga ekki fyrir mat."

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist fyrst þann 17. janúar 2009 kl 21:23

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband