Laugardagur, 2. maí 2009
Slumdog Millionaire hlaut átta Óskarsverðlaun
Slumdog Millionaire kom sá og sigraði á 81. Óskarsverðlauna afhendingunni sem haldin var í hinu fræga Kodak leikhúsi í kvöld. Myndin hlaut alls 8 Óskarsverðlaun m.a. fyrir bestu mynd. Danny Boyle fékk Óskarinn fyrir besta leikstjórn og A.R. Rahman fékk tvenn verðlaun fyrir tónlist í myndinni. Þar að auki fékk myndin verðlaun fyrir hljóðsetningu, handrit, kvikmyndatöku og klippingu. Kvikmyndin The Curious Case of Benjamin Buttonfékk þrjá Óskara.
Leikararnir Sean Penn og Kate Winslet hlutu Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Sean Penn hlaut verðlaunin fyrir túlkun sína á Harvey Milk, bandarískum stjórnmálamanni og baráttumanni fyrir samkynhneigða, í kvikmyndinni Milk. Kvikmyndin Milk hlaut einnig verðlaun fyrir besta frumsamda handrit. Kate Winslet hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Reader.
Heath Ledger og Penelope Cruz fengu bæði Óskarinn fyrir bestan leik í aukahlutverki. Penelope Cruz hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Vicky Cristina Barcelona og Heath Ledger fyrir túlkun sína á Jókernum í nýjustu Batman kvikmyndinni. Fjölskylda Ledgers tók við verðlaununum fyrir hönd hans og þökkuðu fyrir að hafa gefið syni sínum þessa mikilvægu viðurkenningu fyrir vinnu sinni. The Dark Knight fékk einnig Óskarinn fyrir frábæra hljóðvinnslu. Hefur liðið yfir einhvern hérna áður? Ef ekki þá verð ég líklegast sú fyrsta, sagði Penelope Cruz þegar hún tók við Óskarinum og minntist Kate Winslet á orð hennar í sinni ræðu.
Í flokki tölvugerða kvikmynda hlaut litla forvitna vélmennið Wall-e Óskarinn fyrir kvikmynd í fullri lengd og stuttmyndin La Maison en Petits Cubes hlaut Óskarinn fyrir bestu tölvugerða stuttmyndina.Man on Wire hlaut Óskarinn fyrir bestu heimildamynd ársins, Departures fyrir bestu erlendu mynd, The Duchess fyrir bestu búninga og Spielzeugland fyrir bestu spennumynd í lengd stuttmyndar.
-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 23.febrúar 2009 05:08
Mikið var lagt í hátíðina og umgjörð hennar og var meðal annars sviðið sett saman að fyrirmynd úr gömlum frægum Hollywood bíómyndum og listaverkum. Öll tónlist sem spiluð var á hátíðinni var spiluð af hljómsveit á staðnum og þekktum söngvörum. Mikil leynd hvíldi um hver myndi kynna hátíðina en það var ástralski leikarinn Hugh Jackman sem fékk það hlutverk en það gerði hann með blöndu af söng og miklum húmor sem í raun einkenndi alla hátíðina í heild sinni. Einnig var mikið lagt í sviðsmynd fyrir kynningu verðlaunaflokkana og mátti sjá alltaf nýja sviðsmynd í stíl kvikmyndabransans. Með þessum breytingum á hátíðinni vonuðust umsjónarmenn hennar að auka áhorf á Óskarsverðlaunin, en á síðasta ári var minnsta áhorf á afhendinguna síðan byrjað var að telja áhorfin.
Flokkur: Landpostur.is | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.