„Þeir leituðu að líki en fundu lifandi mann”

340x

Mikil reiði ríkir meðal almennings í Argentínu og víðar eftir að myndband birtist á netinu og í sjónvarpi í Argentínu sem sýnir Federico Campanini, 31. árs gamlan leiðsögumann, berjast við líf og dauða á fjallinu Aconcagua í Andesfjallgarðinum í Suður Ameríku. Myndbandið var tekið þegar hópur björgunarmanna reyndi að bjarga Campanini eftir að hann lenti í snjóstormi og viltist af leið. Hann slasaðist þegar snjófljóð féll á svæðinu en ítölsk kona lést í flóðinu, en hún var ásamt fjórum öðrum í hóp sem hann var að leiða um fjallið. Á myndbandinu má sjá björgunarmennina standa rólegir við hliðin á Campanini, reyna að hífa hann upp á lappirnar, binda reipi utan um búkinn á honum og draga hann svo eftir sér. Stuttu síðar liggur hann líflaus í snjónum.

Faðir hans, Carlos Campanini, hefur kært björgunarmennina, en hann fékk myndbandið frá ónefndum aðila og hlóð því upp á netið í kjölfarið, en hann ásakar björgunarmennina fyrir að skilja son sinn eftir. „Þeir leituðu að líki en fundu lifandi mann”, sagði Carlos en björgunarmennirnir fóru upp fjallið án súrefniskúta, börur né annan björgunarbúnað og sýnir það hversu óundirbúnir þeir voru að finna hann á lífi.

Á myndbandinu má heyra björgunarmenn tala við Campanini og öskra til hans. „Hann hreyfir sig ekki. Ég hef fengið leyfi frá dómara [til að skilja hann eftir]”, segir björgunarmaður í myndbandinu. Síðan má skilja setningar eins og „Nú er nóg komið”, „Upp með þig, asni þinn” og „Áfram með þig, asni þinn”. Myndatökumaðurinn biður hinsvegar guð um að gefa honum styrk og má greina að hann er óöruggur í þessum aðstæðum. Stuttu seinna liggur hans líflaus í snjónum en hann var úrskurðaður látinn um nóttina þann 8. janúar með vökva í lungum, ofkældur og vökvaskort.

Björgunaraðgerðin hefur verið harðlega gangrýnd fyrir að vera ekki nægilega vel undirbúin og ekki var gert ráð fyrir að finna Campanini á lífi. Þeir fjallabjörgunarmenn sem blaðamaður Landpóstsins ræddi við sögðu að aðstæðurnar voru erfiðar á fjallinu og hvort björgunaraðgerð hefði verið hægt, en aftur á móti sé alltaf reynt að bjarga fólki þótt að búist sé við að finna látinn aðila. Maður eigi einfaldlega að vona það besta. Aftur á móti vakna upp spurningar hvort hægt væri að ganga í slíka björgunaraðgerð í um 7.000 metra hæð, sérstaklega miðað við þær aðstæður og veður skilyrði sem fyrir hendi voru. „Þeir [björgunarmennirnir] tóku greinilega mikla áhættu að leita af honum því þeir hefðu sjálfir getað lent í sjálfheldu þarna”, sagði einn viðmælandi Landpóstsins og bætir við. „En þeir hefðu getað verið betur útbúnir og viðbúnir öllu mögulegu”. Hinsvegar sagði hann í lokinn að þar sem hann þekkti ekki nógu vel aðgerðarinnar í heild sinni væri erfitt að tjá sig nánar um hana.

Faðir Campanini telur að myndbandið sé sönnun fyrir því að björgunarmennirnir hafa einfaldlega látið son sinn deyja án þess að gera neitt. Einnig gagnrýnir hann þá fyrir að hafa engan björgunarbúnað meðferðis, en fjallgöngumenn á svæðinu segja að öll auka kíló hefði aðeins tafið björgunaraðgerðina. Fjallganga eins og þessi er vanalega gengin á þrjá til fjóra daga fyrir reynda fjallgöngumenn, en björgunarmennirnir gengu upp fjallið á rúmlega einum degi.

Lögreglan á svæðinu rannsakar nú aðgerðina en rannsókn málsins hefur verið erfið. Yfirvöld, leiðsögumenn og starfsfólk á svæðinu hafa ýmist varið aðgerðina og ríkir hætta á að slíkt málaferli gæti fælt sjálfboðaliða til að taka þátt í svona björgunaraðgerðum í framtíðinni, en björgunarfólkið í umræddri aðgerð voru allt sjálfboðaliðar.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 20.febrúar 2009 07:05


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband