Færsluflokkur: Landpostur.is

Er nýtt nemendafélag að rísa innan veggja Háskólans?

merger

Félag laganema, kennaranema og nemenda á hug- og félagsvísindadeild hafa boðið félagsmönnum sínum á sameiginlegan félagsfund fimmtudaginn, 12. mars kl 20:00 í stofu L-201 upp í Sólborg. Á fundinum verður kynnt til sögunar tillaga um stofnun nýs nemendafélags sem mun bæta samstarf milli deilda og efla hagsmunagæslu.

„Nú voru Kennaradeild og félagsvísinda- og lagadeild sameinaðar undir einn hatt í fyrra og kallast í dag Hug- og Félagsvísindadeild. Því hafa nemendafélögin Kumpáni, Magister og Þemis ákveðið að leggja þá tillögu fram við nemendur hinu fyrrnefndu félaga að ráðist verði í mikla samvinnu félaganna sem myndi þó ekki grafa undan sjálfstæði þeirra.”, segir í tilkynningu sem send var nemendum í byrjun vikunnar.

Á síðasta aðalfundi félagana var sett af stað sérstök ferla- og samráðsnefnd sem átti að skoða möguleika og stöðu nemendafélagana þriggja þegar kennaradeild og félagsvísinda- og lagadeild skólans væri sameinaðar. Starf þeirra og félagana verður því kynnt félagsmönnum á fimmtudaginn kemur.

Á fundinum verður einnig kosið um nafn á félaginu og býðst félagsmönnum að koma með sínar tillögur.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 10.mars 2009 17:14


Þórsmörk ehf hæstbjóðandi í Árvakur hf

Einkahlutafélagið Þórsmörk sem er í eigu Óskars Magnússonar var með hæsta tilboðið í Árvakur útgáfufélag Morgunblaðsins með því að taka yfir skuldir Árvakurs og að auki koma með nýtt hlutafé inn í fyrirtækið. Hefur félagið því gengið frá samkomulagi við Íslandsbanka um kaupin en gengið verður frá samningum á næstu dögum.

Ásamt Óskari Magnússyni koma Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson inn í kaupin sem hluthafar, en síðar meir er gert ráð fyrir að bæta við hluthöfum inn í félagið. Við kaupin færast hlutafé fyrri eigenda niður í núll.

„Það er fagnaðarefni fyrir starfsmenn og áskrifendur Morgunblaðsins og mbl.is að búið sé að eyða óvissu um framtíð félagsins.”, sagði Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs í tilkynningu frá bankanum.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka sem annaðist söluferlið komu þrjú félög til greina. Palumbo holdings ehf, félag Steve Cosser og Everhard Visser, átti næst hæsta tilboðið í fyrirtækið og Almenningshlutafélagsins ehf. sem Vilhjálmur Bjarnason er í forsæti fyrir var með þriðja hæsta tilboðið. Um 200 milljónir króna munur var á hæsta og næstlægsta tilboði.

Kaupverðið fékkst hinsvegar ekki gefið upp.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 25.febrúar 2009 23:15


Slumdog Millionaire hlaut átta Óskarsverðlaun

mynd: Getty Images

Slumdog Millionaire kom sá og sigraði á 81. Óskarsverðlauna afhendingunni sem haldin var í hinu fræga Kodak leikhúsi í kvöld. Myndin hlaut alls 8 Óskarsverðlaun m.a. fyrir bestu mynd. Danny Boyle fékk Óskarinn fyrir besta leikstjórn og A.R. Rahman fékk tvenn verðlaun fyrir tónlist í myndinni. Þar að auki fékk myndin verðlaun fyrir hljóðsetningu, handrit, kvikmyndatöku og klippingu. Kvikmyndin The Curious Case of Benjamin Buttonfékk þrjá Óskara.

Leikararnir Sean Penn og Kate Winslet hlutu Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Sean Penn hlaut verðlaunin fyrir túlkun sína á Harvey Milk, bandarískum stjórnmálamanni og baráttumanni fyrir samkynhneigða, í kvikmyndinni Milk. Kvikmyndin Milk hlaut einnig verðlaun fyrir besta frumsamda handrit. Kate Winslet hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Reader.

Heath Ledger og Penelope Cruz fengu bæði Óskarinn fyrir bestan leik í aukahlutverki. Penelope Cruz hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Vicky Cristina Barcelona og Heath Ledger fyrir túlkun sína á Jókernum í nýjustu Batman kvikmyndinni. Fjölskylda Ledgers tók við verðlaununum fyrir hönd hans og þökkuðu fyrir að hafa gefið syni sínum þessa mikilvægu viðurkenningu fyrir vinnu sinni. The Dark Knight fékk einnig Óskarinn fyrir frábæra hljóðvinnslu. „Hefur liðið yfir einhvern hérna áður? Ef ekki þá verð ég líklegast sú fyrsta”, sagði Penelope Cruz þegar hún tók við Óskarinum og minntist Kate Winslet á orð hennar í sinni ræðu.

Í flokki tölvugerða kvikmynda hlaut litla forvitna vélmennið Wall-e Óskarinn fyrir kvikmynd í fullri lengd og stuttmyndin La Maison en Petits Cubes hlaut Óskarinn fyrir bestu tölvugerða stuttmyndina.Man on Wire hlaut Óskarinn fyrir bestu heimildamynd ársins, Departures fyrir bestu erlendu mynd, The Duchess fyrir bestu búninga og Spielzeugland fyrir bestu spennumynd í lengd stuttmyndar.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 23.febrúar 2009 05:08

Mikið var lagt í hátíðina og umgjörð hennar og var meðal annars sviðið sett saman að fyrirmynd úr gömlum frægum Hollywood bíómyndum og listaverkum. Öll tónlist sem spiluð var á hátíðinni var spiluð af hljómsveit á staðnum og þekktum söngvörum. Mikil leynd hvíldi um hver myndi kynna hátíðina en það var ástralski leikarinn Hugh Jackman sem fékk það hlutverk en það gerði hann með blöndu af söng og miklum húmor sem í raun einkenndi alla hátíðina í heild sinni. Einnig var mikið lagt í sviðsmynd fyrir kynningu verðlaunaflokkana og mátti sjá alltaf nýja sviðsmynd í stíl kvikmyndabransans. Með þessum breytingum á hátíðinni vonuðust umsjónarmenn hennar að auka áhorf á Óskarsverðlaunin, en á síðasta ári var minnsta áhorf á afhendinguna síðan byrjað var að telja áhorfin.


Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er blaðamaður ársins

Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands voru fyrir stuttu veitt á Hótel Holti og hlaut Þóra Kristín Ásgeirsdóttir Blaðamannaverðlaun ársins. Þóra Kristín er blaðamaður á mbl.is og stýrir þar vefsjónvarpinu. Hún var tilnefnd fyrir vandaðar frettir sem hún nálgast að frumlegum hætti og nýtir því netmiðilinn með nýjum hætti.

Sigurjón M. Egilsson á Mannlífi og Bylgjunni hlaut verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna á síðasta ári. Sigurjón var tilnefndur fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í íslenskum fjölmiðlum.

Ragnar Axelsson ljósmyndari og Önundur Páll Ragnarsson blaðamaður Morgunblaðsins hlutu verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins, en þeir fjölluðu um virkjunarkosti á Íslandi. „Þar voru dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi," segir í umsögn dómnefndar.

Landpósturinn óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með verðlaunin.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 21.febrúar 2009 18:28


„Þeir leituðu að líki en fundu lifandi mann”

340x

Mikil reiði ríkir meðal almennings í Argentínu og víðar eftir að myndband birtist á netinu og í sjónvarpi í Argentínu sem sýnir Federico Campanini, 31. árs gamlan leiðsögumann, berjast við líf og dauða á fjallinu Aconcagua í Andesfjallgarðinum í Suður Ameríku. Myndbandið var tekið þegar hópur björgunarmanna reyndi að bjarga Campanini eftir að hann lenti í snjóstormi og viltist af leið. Hann slasaðist þegar snjófljóð féll á svæðinu en ítölsk kona lést í flóðinu, en hún var ásamt fjórum öðrum í hóp sem hann var að leiða um fjallið. Á myndbandinu má sjá björgunarmennina standa rólegir við hliðin á Campanini, reyna að hífa hann upp á lappirnar, binda reipi utan um búkinn á honum og draga hann svo eftir sér. Stuttu síðar liggur hann líflaus í snjónum.

Faðir hans, Carlos Campanini, hefur kært björgunarmennina, en hann fékk myndbandið frá ónefndum aðila og hlóð því upp á netið í kjölfarið, en hann ásakar björgunarmennina fyrir að skilja son sinn eftir. „Þeir leituðu að líki en fundu lifandi mann”, sagði Carlos en björgunarmennirnir fóru upp fjallið án súrefniskúta, börur né annan björgunarbúnað og sýnir það hversu óundirbúnir þeir voru að finna hann á lífi.

Á myndbandinu má heyra björgunarmenn tala við Campanini og öskra til hans. „Hann hreyfir sig ekki. Ég hef fengið leyfi frá dómara [til að skilja hann eftir]”, segir björgunarmaður í myndbandinu. Síðan má skilja setningar eins og „Nú er nóg komið”, „Upp með þig, asni þinn” og „Áfram með þig, asni þinn”. Myndatökumaðurinn biður hinsvegar guð um að gefa honum styrk og má greina að hann er óöruggur í þessum aðstæðum. Stuttu seinna liggur hans líflaus í snjónum en hann var úrskurðaður látinn um nóttina þann 8. janúar með vökva í lungum, ofkældur og vökvaskort.

Björgunaraðgerðin hefur verið harðlega gangrýnd fyrir að vera ekki nægilega vel undirbúin og ekki var gert ráð fyrir að finna Campanini á lífi. Þeir fjallabjörgunarmenn sem blaðamaður Landpóstsins ræddi við sögðu að aðstæðurnar voru erfiðar á fjallinu og hvort björgunaraðgerð hefði verið hægt, en aftur á móti sé alltaf reynt að bjarga fólki þótt að búist sé við að finna látinn aðila. Maður eigi einfaldlega að vona það besta. Aftur á móti vakna upp spurningar hvort hægt væri að ganga í slíka björgunaraðgerð í um 7.000 metra hæð, sérstaklega miðað við þær aðstæður og veður skilyrði sem fyrir hendi voru. „Þeir [björgunarmennirnir] tóku greinilega mikla áhættu að leita af honum því þeir hefðu sjálfir getað lent í sjálfheldu þarna”, sagði einn viðmælandi Landpóstsins og bætir við. „En þeir hefðu getað verið betur útbúnir og viðbúnir öllu mögulegu”. Hinsvegar sagði hann í lokinn að þar sem hann þekkti ekki nógu vel aðgerðarinnar í heild sinni væri erfitt að tjá sig nánar um hana.

Faðir Campanini telur að myndbandið sé sönnun fyrir því að björgunarmennirnir hafa einfaldlega látið son sinn deyja án þess að gera neitt. Einnig gagnrýnir hann þá fyrir að hafa engan björgunarbúnað meðferðis, en fjallgöngumenn á svæðinu segja að öll auka kíló hefði aðeins tafið björgunaraðgerðina. Fjallganga eins og þessi er vanalega gengin á þrjá til fjóra daga fyrir reynda fjallgöngumenn, en björgunarmennirnir gengu upp fjallið á rúmlega einum degi.

Lögreglan á svæðinu rannsakar nú aðgerðina en rannsókn málsins hefur verið erfið. Yfirvöld, leiðsögumenn og starfsfólk á svæðinu hafa ýmist varið aðgerðina og ríkir hætta á að slíkt málaferli gæti fælt sjálfboðaliða til að taka þátt í svona björgunaraðgerðum í framtíðinni, en björgunarfólkið í umræddri aðgerð voru allt sjálfboðaliðar.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 20.febrúar 2009 07:05


Tólf manns tilnefndir til blaðamannaverðlauna í ár

Blaðamannafélag Íslands mun á laugardaginn næstkomandi afhenda sína árlegu blaðamannaverðlaun félagsins á Hótel Holti í Reykjavík kl 17:00. Ellefu blaðamenn og einn ljósmyndari eru í ár tilnefndir í þremur verðlaunaflokkum.

Í flokki blaðamannaverðlaun ársins eru tilnefndir Jóhann Hauksson, DV; Sigrún Davíðsdóttir, RÚV og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, mbl.is.

Jóhann er tilnefndur fyrir fréttaskrif og umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál. Sem dæmi má nefna skrif hans um samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sigrún er tilnefnd fyrir pistla m.a. í tengslum við bankahrunið og áhrif þess erlendis en hún velti fyrir sér efnið á nýjum hliðum og sett þau í nýtt og upplýsandi samhengi. Þóra Kristín fær tilnefningu fyrir vandaðar fréttir á vefsjónvarpi mbl.is, en þar nálgast málefni líðandi stundar að frumlegum hætti og nýtir þar með netmiðilinn með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun.

Í flokki rannsóknarblaðamennsku ársins eru tilnefndir Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson, DV; Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, DV og Sigurjón M. Egilsson, Mannlíf og Bylgjan.

Atli Már og Trausti fá tilnefningu fyrir ítarleg og afhjúpandi umfjöllun um kynþáttarfordóma meðal ungs fólks á Suðurnesjum og margvísleg áhrif þeirra. Brynjólfur Þór og Erla fá tilnefningu fyrir ítarleg og samfelld skrif og greiningu á eftirlaunum ráðamanna og áhrifum eftirlaunafrumvarpsins. Sigurjón er tilnefndur fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í íslenskum fjölmiðlum. Sigurjón stýrði m.a. útvarpsþætti á Bylgjunni þar sem hann tók fyrir íslensk þjóðmál.

Í flokki besta umfjöllun ársins eru tilefndir Baldur Arnarson, Morgunblaðið; Brjánn Jónasson, Fréttablaðið og Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðið.

Baldur er tilnefndur fyrir greinaflokkinn Ný afstaða í norðri, en þar fór hann yfir þær breytingar sem hlýnun andrúmsloftið hefur á norðurslóðirnar. Brjánn er tilnefndur fyrir upplýsandi og vel fram sett skrif um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Önundur Páll og Ragnar fá tilnefningu fyrir umfjöllun um virkjanakosti á Íslandi dregin saman með öflugri samvinnu texta og mynda.

Á vefsvæði morgunblaðsins, mbl.is, er búið að útbúa sérstakt vefsvæði þar sem hægt er að skoða það efni sem blaðmenn Morgunblaðsins er tilnefndir fyrir.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 19.febrúar 2009 16:53


Íslensku tónlistarverðlaunin veitt í 15. sinn

Baggalútur og Sigur Rós sópuðu bæði að sér tvo verðlaunagripi á íslensku tónlistarverðlaunum sem veitt voru í 15. skiptið nú fyrir stundu. Mikill húmor einkenndi athöfnina en karlakór vakti upp hrifningu og hlátur hjá þeim sem tilkynntu sigurvegara kvöldsins. Að sögn Jakob Frímans Magnússonar, sem veitti hvatningarverðlaun kvöldins, er verðlauna afhendingin mun afslappaðri í ár en áður. Í ár var verðlaunaflokkum fækkað en í staðinn bætt við tilnefningar í hverjum flokki.

Sigur Rós var valin höfundur ársins fyrir lagasmíði á plötunni „Með suð í eyrunum við dönsum endalaust” en í umsögn dómnefndar segir að með plötunni hafi sveitin náð að stækka sjóndeildarhringinn og víkka út laga- og textasmíðar sínar á hugkvæman og humorískan hátt.

Tónverkið Ora eftir Áskell Másson var valið tónverk ársins fyrir að vera áhrifamikið, heillandi og ágengt verk sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Áskell lýsti í þakkaræðu sinni að tónverk væri eins og byggingarframkvæmd. Hún gangi hægt, hún gengur hratt en megi aldrei stöðvast. Þar var hann að lýsa framkvæmdum við Tónlistarhúsið en Áskell ætlaði að frumflytja verkið fyrir íslensku þjóðina þar.

Hvatningarverðlaunin fengu frumkvöðlarnir sem stóðu bakvið stofnun Músíktilrauna sem að hefur verið stökkpallur margra íslensku tónlistarmanna síðan fyrsta keppnin var haldin og gefið ungum tónlistarmönnum tækifæri á að koma sér á framfæri.

Lagið þú komst við hjartað í mér sem Toggi samdi en Hjartalín og Páll Óskar fluttu í nýrri mynd var valið lag ársins. „90% af þökkunum fer til Hjaltalín fyrir að gefa laginu nýtt líf.„ sagði Páll Óskar þegar hann og Toggi tóku á móti verðlaunum en í umsögn dómnefndar segir að Hjaltalín sá fegurðina í lagi og texta og færði það nær hjarta þjóðarinnar í rólegri útgáfu sinni.

Emilíana Torrini var með rödd ársins að mati dómnefndar. „Á nýjustu plötunni sinni dustar hún rykið af stórsöngkonutöktunum sem blunda í barka hennar en hún hefur ekki beitt mikið eftir að hún varð alþjóðlegur listamaður.”, segir í umsögn dómnefndar og segir einnig að Emilíana hefur vaxið með hverju nýju verkefni sem hún hefur tekið sér fyrir hendi.

Tónlistarflytjandi ársins er Anna Guðný Guðmundsdóttir fyrir heildarflutning á tónverkinu Tuttugu tillit til Jesúbarnsins eftir Olivier Messiaen.

Agent Fresco, sigurvegari Músíktilrauna á síðasta ári, var valin bjartasta vonin. Sveitin sigraði einnig íslensku forkeppnina fyrir alþjóðlegu keppnina „Battle of the Bands”. Agent Fresco ber með sér ferska strauma og virðist hljómsveitin líkleg til að afreka á næstu misserum segir í umsögn dómnefndar og bætir við að sveitin skipar góðum hljóðfæraleikurum og söngvara með sterkan karakter sem gefur sig allan fram á sviði.

Veit voru viðurkenningar fyrir bestu plötu ársins í þrem flokkum. Ómar Guðjónsson hlaut viðurkenningu fyrir bestu Jazz plötu ársins, Fram af. Besta Pop-rock platan hlaut Sigur Rós fyrir plötuna „Með suð í eyrum við spilum endalaust” og var platan „Fordlandia” eftir Jóhann Jóhannsson valin besta sígilda og samtímatónlistar platan.

Baggalútur var valinn vinsælasti flytjandinn af lesendum vísis.is en Baggalútur var einnig valinn af lesendum tónlist sem besti flytjandinn í netkosningu.

Mugison tók fyrr um daginn við verðlaunum fyrir útflutningi á tónlist sinni og Björk Guðmundsdóttir fékk verðlaun fyrir myndband ársins.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti eins og síðustu ár heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunana. Ingólfur Guðbrandsson var heiðraður fyrir störf sín síðustu áratugi, en Ingólfur hefur lagt sig fram á sviði klassískra tónlistar.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 18. febrúar 2009 21:52


Akureyrarbær dæmdur til að greiða rúmar 3 milljónir í skaðabætur

Akureyrarbær var í síðustu viku dæmdur til að greiða Sigurði Lárus Sigurðssyni, slökkviliðsmanni, tæpar 3 milljónir króna í bætur og 900 þúsund krónur í málskostnað í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Í dóminum segir að stefnandi hafi starfað hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og ákveðið að sækja um lausa stöðu hjá slökkviliði Akureyrar og fengið inn ásamt þremur öðrum umsækjendum. Þegar hann hafi átt að hefja störf var talið að hann hafi hætt við ráðningu sína.

Sigurður höfðaði mál gegn Akureyrarbæ og krafðist þess að bærinn yrði dæmdur til að greiða 3,4 milljónir í skaðabætur og rúmlega 1,2 milljónir í miskabætur með dráttarvöxtum. Segir í niðurstöðu héraðsdóms að Akureyrarbær hafi með ólögmætum hætti rift ráðningasamningi aðila og dæmdi honum í hag rúmar 3 milljónir í skaðabætur vegna búferlaflutninga hans og fjölskyldu. Dómurinn tók hinsvegar ekki undir kröfu hans um að brotið var gegn æru eða starfsheiðri stefnenda.

Sjá má dóminn í heild sinni hér

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 6.febrúar 2009 17:09


Sex sóttu um starf rektors við Háskólann á Akureyri

solborg_mai06_400

Alls bárust sex umsóknir um starf rektors við Háskólann á Akureyri, en umsóknarfrestur rann út þann 10. febrúar síðast liðinn. Þorsteinn Gunnarsson tilkynnti í nóvember í fyrra að hann ætlaði að hætta störfum sem rektor þegar ráðningartímabil hans lýkur 5. maí næstkomandi. Þorsteinn hefur verið rektor Háskólans í næstum 15 „viðburðarík en ánægjuleg” ár að eigin sögn.

Umsækjendur eru þeir Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar; Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri; Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor í stjórnun við Háskólann á Akureyri; Ívar Jónsson, forstöðumaður þjóðdeildar Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns; Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands og Zhanna Suprun, verkfræðingur.

Rektor er skipaður til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Tilnefnir eru tveir aðilar í nefnd til að meta hæfni umsækjenda en háskólaráð og menntamálaráðherra tilnefnda sitthvora aðilann. Hæfni umsækjenda um embætti rektors skal metin í ljósi heildarmats. Umsækjendur eru skoðaðir með tilliti til vísinda- og útgáfustarfa, ferils sem háskólakennari eða í öðrum störfum, rekstrar og stjórnunarreynslu og með tilliti til þess hversu menntun og reynsla viðkomandi muni nýtast í starf i rektors.

„Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með ykkur við uppbyggingu háskólans. Fyrir ykkar tilstyrk hefur tekist að gera háskólann að því lifandi og öfluga samfélagi sem hann er í dag. Ég vil þakka ykkur fyrir framúrskarandi störf og óska ykkur áframhaldandi velgengni í lífi ykkar og störfum.”, sagði Þorsteinn í brefi sem hann sendi nemendum og starfsmönnum Háskólans þann 7. nóvember síðast liðinn.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 12. febrúar 2009 kl 18:49


Leitað að konu í Reykjavík

Mynd tekin við annað tilefni

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu voru rétt fyrir miðnætti í gær boðaðir út í leit í Reykjavík. Ekki náðist í svæðisstjórn á höfuðborgarsvæðinu þegar leitað var eftir upplýsingum, en samkvæmt vefsíðum björgunarsveitanna var leitað að konu í austurhluta Reykjavíkur. Eftir um klukkustunda leit fannst konan heil á húfi og var aðgerðin þá afturkölluð.

Á hverju ári eru björgunarsveitir oft kallaðar til að leita að fólki en aðgerðum er þá stjórnað úr Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð. Í fyrra var Samhæfingarmiðstöðin virkjuð í 36 skipti vegna leitar að fólki, en hlutverk hennar er að samhæfa aðgerðir neyðaraðila um allt land. Alls var samhæfingarstöðin virkjuð í 71 skipti árið 2008, þar af í 12 skipti útaf óveðurs eða ófærðar og sjö flugatvik.

Umfangsmesta aðgerðin í Samhæfingarmiðstöðinni á síðasta ári var vegna jarðskjálfta við Hveragerði og Selfoss þann 29. maí, en þá voru allir neyðaraðilar boðaðir til og stóð aðgerðin í lengri tíma.

-----------
Greinin var skrifuð fyrir landpostur.is, fréttavef Fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Fréttin birtist þann 04.febrúar 2009 kl 17:59


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband